Upphafsárin

Söngkeppni framhaldsskólanna var fyrst haldin árið 1990. Hugmynd að keppninni hafði komið upp áður en ekki hrint í framkvæmd fyrr en þá. Lárus Ingi Magnússon vann keppnina fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurlands en í öðru sæti var Móeiður Júniusdóttir.
Páll Óskar sem var í 3. sæti var svo kynnir á keppninni næsta ár þegar Margrét Eir Hjartardóttir vann og Hera Björk Þórhallsdóttir lenti í 2. sæti.
Fleiri þekktir söngvarar komu fram á keppninni þessi fyrstu ár, þar á meðal Emilíana Torrini sem vann 1994, Svavar Knútur og Regína Ósk.
Fyrstu 6 árin var keppnin á Hótel Íslandi en færðist svo í Laugardalshöll 1996 og var þar hvert ár fram til 2000 en það ár vann Sverrir Bergmann og Jóhannes Haukur Jóhannesson lenti í 2. sæti.

Farið á flakk

Árið 2001 seinkaði keppninni vegna kennaraverkfalls og Laugardalshöll reyndist ekki laus. Var keppnin því haldin í Háskólabíói það ár. Næstu ár var keppnin mikið á flakki, Íþróttahúsi Breiðabliks 2002, Íþróttahöllin á Akureyri 2003 og Kaplakrika Hafnarfirði 2004. Var keppnin aftur á Akureyri 2005 og svo í Garðabæ 2006 áður en keppnin fann sér nokkuð fastan samastað á Akureyri frá 2007 til 2011.
Fram til þessa hafði sigurvegari alltaf verið valinn af dómnefnd en um 2006 var einnig farið að velja vinsælasta atriðið með sms og símakosningu.
RÚV sýndi upptöku frá hverri keppni frá upphafi til 1999 og svo í beinni útsendingu frá 2000. Árið 2009 hætti RÚV hinsvegar við og blasti við að keppnin yrði ekki sýnd í sjónvarpi. Stöð 2 hljóp hinsvegar í skarðið og sýndi keppnina beint í opinni dagskrá. Næstu tvær keppnir voru einnig á Stöð 2.

Breyttir tímar

Árið 2012 voru miklar breytingar á keppninni. Saga Film tók við framleiðslu á keppninni og RÚV byrjaði aftur að sýna hana í beinni útsendingu. Til að stytta útsendinguna voru 12 atriði valin með dómnefnd og SMS kosningu til að komast í úrslit í sjónvarpinu.
Næstu ár fór keppnin aftur til Akureyrar. 2013 var keppnin í Íþróttahöllinni á Akureyri með forkeppni á föstudagskvöldi eingöngu fyrir áhorfendur í sal og úrslit á laugardagskvöldi í beinni útsendingu. Vegna dræmrar mætingar á laugardagskvöldinu var keppnin færð í minni sal í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri, árið 2014 og bæði forkeppni á laugardeginu og úrslit um kvöldið sýnd í beinni útsendingu.
Árin 2015 og 2016 var keppnin haldin með sama hætti í myndveri Saga Film.
2017 var engin keppni haldin, en 2018 var hún endurvakin á Akranesi. Var þá farið aftur til fyrra horfs að öll atriði kepptu í einni keppni sem send var út í beinni útsendingu. Fyrst í Íþróttahúsinu á Akranesi og svo í Bíóhöllinni þar árið 2019.
Árið 2020 átti keppnin að fara aftur norður í Íþróttahöllina á Akureyri en var frestað þegar samkomubann var sett á vegna Covid-19 faraldursins. Í staðinn var hún haldin án áhorfenda í húsnæði Exton í Kópavogi haustið 2020.